Bæjarstjórn Hveragerðis beitir nú eigendur Kambalandsins svokallaða dagssektum sem nema 50.000 krónum á dag og nema sektirnar nú yfir 13 milljónum króna.
Engir fundir hafa verið boðaðir á milli eigenda landsins eða fulltrúa bæjarins.
Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur bæjarstjóra var ekki umflúið að beita þessum sektum því þrátt fyrir ítrekaða fundi og viðræður við eigendur landsins hefur hvorki gengið né rekið að fá þá til að ganga þar sómasamlega frá.
Á svæðinu fýkur úr moldarhleðslum sem eru við landið auk þess sem vegir eru ófrágengnir. Reikningur vegna dagssektanna verður sendur eiganda lóðarinnar á allra næstu dögum enda allir frestir sem gefnir hafa verið til úrbóta liðnir. Dagsektir eru aðfarahæfar og taka 1. veðrétt.
Kambalandið var í eigu félags sem Magnús Jónatansson fjárfestir fór fyrir en skilanefnd Icebanks er nú með málið hjá sér. Á Kambalandinu var ætlunin að reisa 250 til 300 íbúðir en gert var ráð fyrir 700 íbúa byggð. ,,Við erum samfærð um að þarna rísi byggð enda um að ræða mjög gott byggingaland,” sagði Aldís.