Dagur Fannar ráðinn sóknarprestur í Skálholti

Sr. Dagur Fannar Magnússon. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingurinn séra Dagur Fannar Magnússon, prestur að Heydölum í Breiðdal, hefur verið ráðinn sóknarprestur í Skálholtsprestakalli.

Dagur Fannar greindi frá þessu á Facebooksíðu sinni í kvöld.

„Þótt að ég hafi aðeins verið í Heydölum í rúmlega tvö ár og þjónað um svo skamma hríð hef bundist staðnum og sóknarbörnum mínum sterkum böndum sem aldrei munu bresta. Ég er afar þakklátur fyrir það hvernig tekið var á móti okkur fjölskyldunni og fengið ómetanlegan stuðning frá samfélaginu. Ég vil einnig þakka sóknarnefndunum fyrir að elta mig og hleypa mér af stað í allskonar vitleysu sem vonandi skilar sér vel fyrir framtíð kirkjunnar á stöðunum. Ég er spenntur fyrir komandi tímum en mun fara með söknuði, Stöðvarfjörður og Breiðdalur og yndislega fólkið þar mun ávallt eiga stað í hjörtum fjölskyldunnar,“ segir Dagur Fannar í færslu á Facebook.

Skálholtsprestakall er á samstarfssvæði með Hrunaprestakalli. Það samanstendur af átta sóknum þar sem eru tólf kirkjur. Prestakallinu fylgir vaktsími sem er fyrir HSU á Selfossi, lögreglu og aðra viðbragðsaðila vegna bráðaútkalla, vitjana, slysa og andláta í Árnessýslu. Prestsbústaður er í Skálholti og þar er starfsaðstaða sóknarprestsins. Sóknarnefnd telur nauðsynlegt að prestur hafi fast aðsetur í Skálholti og er æskilegt að starfsaðstaða hans verði í Gestastofu Skálholts. Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Fyrri greinFjögur lík fundin í Þingvallavatni
Næsta greinAlexander skellti í lás og skoraði þrjú