Hátíðardagskrá í tilefni af Degi íslenskrar tungu var haldinn á fimmtudaginn 14. nóvember í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, setti dagskrána og flutti ávarp þar sem hann tengdi t.a.m. saman Dag íslenskrar tungu og 350 ára afmæli Árna Magnússonar.
Venju samkvæmt lásu krakkarnir í 10. bekk, Brennu-Njálssögu frá upphafi til enda skrýdd búningum í víkingastíl. Þessi góða hefð sem skapast hefur í skólanum á sérstaklega vel við hér á Njáluslóðum og gaman að sjá þessari Íslendingasögu „okkar“ hampað á þennan hátt. Auður Fr. Halldórsdóttir, kennari, hefur séð um að æfa hópinn fyrir upplesturinn.
Margt fleira var í boði yfir daginn. Meðal annars kynnti Gunnhildur E. Kristjánsdóttir Njálurefilinn en í Sögusetrinu er verið að sauma Njálssögu í 90 m. langan refil. Börnin í 1. og 2. bekk komu og fluttu Úllen dúllen doff og Einn var að smíða ausutetur og nemendur í 3. og 4. bekk fluttu einnig tvö lög. Nemendurnir á yngsta stigi stóðu sig mjög vel að vanda og gaman að sjá þau taka þátt í dagskránni.
Kór Hvolsskóla tók lagið undir stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur og nemendur í tónlistarvali sungu líka. Þá kom Hringurinn, kór eldri borgara, og því var aldursbil þeirra sem tóku þátt í dagskránni mjög breitt. Tónlistarskóli Rangæínga átti líka fulltrúa en nokkrir nemendur komu og fluttu lög. Nemendur í 7. bekk byrjuðu formlega á að æfa sig fyrir Stóru upplestrarkeppnina og fluttu ljóðið Gunnarshólma.
Eva María Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona og rithöfundur, flutti hátíðarávarp og fór á kostum en hún ræddi m.a. um að hún hefði verið í afmæli en afmælisbarnið hafi þó verið dáið, en þar var hún einnig að vísa í afmæli Árna Magnússonar.
Myndir frá deginum má sjá hér.