Dagur leikskólans í Álfheimum

Álfheimar á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í tilefni af degi leikskólans verður opið hús í leikskólanum Álfheimum á Selfossi á morgun, laugardaginn 7. febrúar kl. 11:00-13:00.

Leikskólinn Álfheimar var opnaður 13. desember 1988 og er einn fimm leikskóla í sveitarfélaginu Árborg.

Í leikskólanum er unnið samkvæmt aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrá Álfheima sem kemur nú út í nýrri og endurbættri útgáfu þessa dagana.

Um síðustu aldamót tók leikskólinn þátt í verkefninu Vistvernd í verki. Leikskólinn Álfheimar fékk afhentan Grænfánann í fyrsta sinn árið 2004 og var annar leikskólinn á landinu sem fékk hann. Á þeim tíma var einnig unnið að þróunarverkefninu Út í mó inn í skóg. Frá árinu 2012 hefur þróunarverkefnið Gullin í grenndinni verið unnið í samstarfi við Vallaskóla og fjölmarga aðila í nærsamfélaginu.

Sérstaða leikskólans Álfheima er áherslan á allt útinám og að virða frjálsa leikinn sem aðalnámsleið barnanna.

Starfsmannahópur leikskólans hefur sótt sér fróðleik til Norðurlandanna og Póllands varðandi útinám. Í apríl nk. mun hópurinn fara í aðra námsferð sína til Noregs til þess að kynna sér nýungar í útinámi.

Starfmenn leikskólans Álfheima bjóða gestum og gangandi í „opið hús“ á laugardag. Eldur verður kveiktur á útihlóðum í garðinum og inni verður kaffihúsastemming þar sem hægt verður að kaupa kakó og vöfflur.

Kökur og brauð, notaður og nýr fatnaður og ýmis varningur verður til sölu í sal Álfheima.

Allur ágóði mun renna í ferðasjóð starfsmanna. Athugið að ekki er posi á staðnum.

Fyrri greinFóru í sund og skildu fötin eftir
Næsta greinÖlfus hlaut Orðsporið 2015