„Dagurinn heppnaðist frábærlega“

Beint frá býli dagurinn í Gunnbjarnarholti heppnaðist frábærlega. Ljósmynd/Aðsend

Vel á annað þúsund manns mættu á Beint frá býli daginn sem haldinn var í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi síðastliðinn sunnudag.

Beint frá býli dagurinn var haldinn víðsvegar um land, annað árið í röð og var Gunnbjarnarholt annar fulltrúi Suðurlands. Þekktasta afurð Gunnbjarnarholts er án efa Hreppamjólkin, sem er gerilsneydd og ófitusprengd kúamjólk.

„Dagurinn heppnaðist frábærlega og vorum við heldur betur heppin með veður, en það var sól allan daginn og því vakti hoppukastalinn mikla lukku. Það var gaman að sjá hvað þetta var fjölbreyttur hópur sem mætti og allir jákvæðir og ánægðir með daginn,“ segir Margrét Hrund Arnarsdóttir hjá Hreppamjólk í samtali við sunnlenska.is.

Fólk á öllum aldri heimsótti Gunnbjarnarholt sl. sunnudag. Ljósmynd/Graatje Weber

Fólk áhugasamt um hátæknifjósið
Aðspurð segir Margrét að fjósið þeirra hafi líklegast vakið mesta athygli hjá gestunum en það er hátæknifjós sem var tekið í notkun árið 2018.

„Við finnum reglulega fyrir miklum áhuga hjá fólki að fá að koma og skoða fjósið og því var tilvalið fyrir það fólk að mæta á Beint frá býli daginn. Matarmarkaðurinn var vel sóttur og var varla hægt að ganga um fyrir fólki. Framleiðendurnir voru allir hæstánægðir með sölu og kynningu á sínum vörum. Og svo vöktu sjálfsalahúsin mikla athygli.“

Fólk var mjög áhugasamt um hátæknifjósið. Ljósmynd/Graatje Weber
Fjósið í Gunnbjarnarholti þykir stórglæsilegt en það var tekið í notkun árið 2018. Ljósmynd/ Graatje Weber

„Við erum að skjóta á að það hafi mætt á milli 1.300 til 1.600 manns en það er erfitt að segja til um það. Fólk stoppaði mjög lengi þar sem að það var eitthvað í boði fyrir alla og notalegt að sitja úti í blíðunni. Viljum þakka öllum kærlega fyrir sem komu og gerðu sér glaðan dag með okkur og viljum þakka sérstaklega fyrir hvað allir gengu vel um allt. Það var ekki að sjá á mánudeginum að hér hafi verið yfir 1.000 manns deginum áður,“ segir Margrét að lokum.

Á matarmarkaðnum var hægt að kaupa geita- og kiðaafurðir, fiskiafurðir, mjólkurvörur, ís, heilsuvörur, kjöt, afurðir úr rabarbara og fleiri gómsætar vörur. Ljósmynd/Graatje Weber
Birna G. Ásbjörnsdóttir og Embla Guðmundsdóttir kynntu góðgerlana frá Jörth en fyrirtækið vinnur afurðina úr íslenskri broddmjólk. Ljósmynd/Graatje Weber
Efsti-Dalur II bauð upp á smakk. Ljósmynd/Graatje Weber
Hátt í tvö þúsund manns heimsóttu Gunnbjarnarholt sl. sunnudag. Ljósmynd/Graatje Weber
Matarmarkaðurinn sló í gegn. Ljósmynd/Graatje Weber
Kýrnar voru álíka forvitnar um gestina eins og gestirnir voru um þær. Ljósmynd/Graatje Weber
Fyrri greinLögðu hald á fíkniefni, vopn og heimagert áfengi
Næsta greinAndri bætti eigið met í Brúarhlaupinu