Danska straumfræðistofnunin leggur til að ós Markarfljóts verði færður 2,5 kílómetra til austurs til þess að komast hjá miklum jarðefnaburði úr Markarfljóti í Landeyjahöfn
Undanfarna mánuði hafa sérfræðingar Dönsku straumfræðistofnunarinnar (DHI) unnið að rannsóknum í Landeyjahöfn. Niðurstöður þeirra voru kynntar í síðustu viku á fundi samráðshóps um samgöngur, að því er fram kom á bæjarráðsfundi í Eyjum í gær.
Danirnir telja að lenging hafnargarða skili ekki bættri hafnaraðstöðu heldur auki þvert á móti straum og ölduhæð og geri innsiglingu erfiðari en nú er. Hins vegar séu líkur á að bæta megi höfnina, meðal annars með neðansjávarrifum og föstum dælubúnaði.
„Danska straumfræðistofnunin leggur til að farið verði í svokallaðar „reservoir“-lausnir sem eru róttækari en þær dýpkunaraðferðir sem hingað til hafa verið notaðar,“ segir í fundargerð bæjarráðs. Fulltrúi Siglingastofnunar telji hins vegar mikla óvissu um magn sandflutninga sem fylgi þeirri lausn. „Niðurstöður DHI gera ráð fyrir að færa þurfi Markarfljót til austurs um 2,5 kílómetra sem fyrst til að forðast þann mikla efnisburð sem því fylgir. Farvegur þess hefur þegar verið færður um 650 metra með góðum árangri.“