Síðastliðinn föstudag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, tóku nemendur Menntaskólans við Laugarvatn sig saman og dönsuðu gegn ofbeldi.
Boðað var til dansviðburðar í miðrými ML undir forystu jafnréttis- og skólaráðsfulltrúa, Ingunnar Lilju Arnórsdóttur og Rakelar Díu Arnarsdóttur. Um árlega hefð er að ræða þar sem góður dagur er valinn og nemendur skólans dansa gegn ofbeldi.
Stallari og varastallari, Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir og Eydís Lilja Einarsdóttir, héldu stutta ræðu þar sem þær hörmuðu ófriðarástand í heiminum í dag. Margrét Elín Ólafsdóttir stýrði dansinum og gleðin tók völd eins og meðfylgjandi myndir sýna vel.
Það vildi svo skemmtilega til að liðsmenn Vinstri grænna voru staddir í kynningarheimsókn í skólann og ef vel er að gáð má sjá liðsmenn þeirra spreyta sig á dansinum.
Menntaskólinn mælir almennt með dansi gegn ofbeldi því góður og hressilegur dans eykur gleði og ýtir undir kærleika. Svo er hann líka góð hreyfing.