„Mér finnst stjórnunarstíll bæjarstjóra sérstakur, enda hefur hún sagt að þetta verði gert þrátt fyrir okkar mótmæli og þau verði höfð að engu.“
Þetta segir Jóhann Ísleifsson, garðyrkjubóndi í Hveragerði en hann hefur mótmælt áformum bæjaryfirvalda að breyta notkun lóðarinnar í Reykjamörk 11, gegnt heimili hans. Bærinn hyggst breyta lóðinni í útivistarsvæði.
Á lóðinni var íbúðarhús sem skemmdist í jarðskjálftanum í maí 2008. Efnt var til samkeppni um úrbætur á lóðinni í þeim tilgangi að þar geti fólk gengið um eða sest niður.
„Ég tel ákvörðun bæjaryfirvalda ólöglega, enda er í gildi deiliskipulag þarna sem kveður á um nýtingu lóðarinnar,“ segir Jóhann sem hefur kært málið til úrskurðarnefndar skipulagsmála.
Jóhann óttast að ónæði geti hlotist af aukinni umferð fólks á lóðinni, einkanlega að næturlagi. Þá séu ekki bílastæði við lóðina og því líklegt að fólk leggi í stæðinu við húsið hans, hinu megin götunnar.
„Þetta er kannski til marks um hið nýja lýðræði hér í Hveragerði,“ segir Jóhann. Bæjarstjóri segir hinsvegar engar líkur til þess að ónæði skapist af úrbótum á umræddum garði umfram það sem er í dag.