Deilt um staðsetningu embættis

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur samþykkt að stækka aðstöðu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps og úthluta embættinu alla efri hæð húsnæðisins að Dalbraut 12 á Laugarvatni þar sem það er nú þegar staðsett.

Ekki er einhugur um þessar málalyktir á meðal þeirra sveitarstjórna sem standa að embættinu því Grímsnes- og Grafningshreppur hefur ítrekað fyrra tilboð sitt um að starfsemi embættisins flytjist í nýtt stjórnsýslu- og skólahúsnæði sem verið er að reisa á Borg.

Heilsugæslan hefur haft aðstöðu í húsnæðinu að Dalbraut 12 með embættinu en Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir að fundið verði annað húsnæði undir starfsemina á Laugarvatni í samráði við heilsugæsluna.

Embætti skipulags- og byggingarfulltrúa fær nýju aðstöðuna til afnota frá og með 1. júlí eftir að nauðsynlegar breytingar hafa verið unnar á henni.

Fram til þessa hefur ítrekað verið reynt að fá aðstöðu fyrir skipulags- og byggingarfulltrúaembættið leigða í húsnæði Héraðsskólans sem er í eigu ríkisins og sem hefur staðið auður um árabil en þær viðræður hafa ekki skilað ásættanlegum árangri að mati sveitarstjórnar og hefur þeim verið slitið.

Fyrri greinRáðherra gerði víðreist um Suðurland
Næsta greinÞrúður stýrir Hafnardögum