Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær að frítt yrði í sund á Selfossi og Stokkseyri alla helgina vegna fjölskylduhátíðarinnar Kótelettan.
Viku fyrr hafði bæjarráð samþykkt tillögu Eyþórs Arnalds um að aðeins yrði ókeypis í sund á laugardeginum en forsvarsmenn Kótelettunnar auglýstu að frítt yrði í sund alla helgina. Í kjölfarið samþykkti bæjarráð að sömuleiðis yrði frítt í sund á föstudag og sunnudag.
Gylfi Þorkelsson, fulltrúi Samfylkingar í bæjarráði, sat hjá við afgreiðslu málsins og lét bóka að ákvörðun um að veita frítt í sund alla helgina feli í sér kostnað sem ekki ert gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. „Ég tel mig ekki hafa umboð til að samþykkja slíkt. Þá eru boðleiðir orðnar stuttar þegar aðilar úti í bæ ákveða afnot af stofnunum sveitarfélagsins í heimildarleysi og kalla svo saman bæjarráð til að samþykkja það eftir á,“ segir í bókun Gylfa.
Þá samþykkti bæjarráð sömuleiðis að leyfa fólki að tjalda í bæjargarðinum í miðbænum og við Sunnulækjarskóla ef brýna nauðsyn ber til. Það er gert í samstarfi við Gesthús og Björgunarfélag Árborgar sem sinna mun gæslu á svæðinu.
Bæjarráð tekur fram að leyfisumsóknir vegna skemmtanahalds í sveitarfélaginu þurfa að berast tímanlega. Samþykki fyrir beiðnum Létts ehf. vegna hátíðahalds Kótelettunnar var afgreitt daginn áður en hátíðin hefst.