Deilur um málefni Dyrhólaeyjar snúast um einn mann eða eina fjölskyldu sem er ósátt við umferð ferðamanna um eyna og hefur í því skyni borið fyrir sig fuglavernd og þá sérstaklega verndun á æðarvarpi, segir í yfirlýsingu frá Mýrdalshreppi.
Sveitarstjórnin segir í gildi heimildarákvæði um að loka eyjunni fyrir umferð frá 1. maí til 25. júní til verndar fuglavarpi. Talning 6. júní síðastliðinn hafi sýnt að einungis sjö æðarhreiður voru á svæði sem almennir ferðamenn hafa áhuga á að sækja.
„Íbúar í Mýrdalshreppi sem í dag hafa verulega hluta tekna sinna af ferðaþjónustu eru því skiljanlega mjög ósáttir við að sjö æðarkollur eigi að geta komið í veg fyrir að ferðamenn fái að njóta þessarar einstöku náttúruperlu. Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur margítrekað stuðning sinn við það sjónarmið.
Mýrdalshreppur blandar sér hinsvegar ekki í þá borgaralegu óhlýðni sem menn hafa sýnt í verki að undanförnu, hvorki ákvörðun bóndans á Vatnsskarðhólum um uppsetningu á ólöglegu hliði til lokunar á eynni, né ákvörðun einhverra um að fjarlægja þá hindrun,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.