Hundrað lítrum af dísilolíu var stolið af vinnuvél við Seyðishóla í Grímsnesi aðfaranótt síðastliðins miðvikudags.
Lögregluna grunar að þar hafi verið á ferð menn á jeppa á 44 tommu hjólbörðum.
Í síðustu viku var einnig stolið 15 hestafla Suzuki utanborðsmótor og rauðum 20 lítra bensíntanki úr litlum báti sem var í flæðarmálinu á Þingvallavatni í landi Miðfells.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar má einnig sjá að sextán ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í liðinni viku og níu fyrir að vera ekki með öryggisbelti á sér í akstri.