Djúp hola opnaðist í malbikinu í íbúðagötunni Rauðholti í austurbæ Selfoss í kvöld. Lítill fólksbíll skemmdi dekk þegar hann lenti í gjótunni en engin slys urðu á fólki.
Holan er meðfram brunni í götunni og örfáum metrum frá er hraðahindrun þannig að þarna er álagspunktur. Umferðarþungi um þessa gömlu íbúðargötu hefur aukist til mikilla muna í vetur en íbúar hafa talið nærri sjötíu ferðir stórra og þungra strætisvagna um götuna á hverjum degi.
Í ágúst árið 2011 opnaðist álíka stór hola í næstu götu, Víðivöllum, en þar undir var botnlaus jarðskjálftasprunga. Að sögn íbúa í Rauðholtinu titrar jörðin á lóðunum í kring þegar strætisvagnarnir aka hjá svo ekki er ólíklegt að eitthvað gangi til neðanjarðar við þessa þungu umferð.
Lögregla og bæjarstarfsmenn hafa verið á vettvangi í kvöld ásamt dælubíl. Ekki sést til botns í holunni vegna vatns og myrkurs.