Kona kom á lögreglustöðina á Selfossi í síðustu viku til að tilkynna hvarf á tæplega 3.000 dollurum sem hún hafði keypt í útibúi Landsbankans í Þorlákshöfn.
Þegar hún ætlaði að grípa til dollaranna voru þeir ekki þar sem hún taldi þá eiga að vera.
Síðastliðinn miðvikudag hafði maður samband sem sagðist hafa fundið tvo hundrað dollaraseðla í garði sínum við Hafnarberg. Hann hafði heyrt utan af sér af nokkrum öðrum sem höfðu fundið dollaraseðla á svæðinu.
Hugsanlegt er að þarna hafi verið um að ræða dollara sem konan tilkynnti að væru tapaðir.
Lögreglan biður þá sem hafa fundið dollara á sveimi í Þorlákshöfn að hafa samband í síma 480-1010.