Dópsali reyndi að flýja á reiðhjóli

Lögreglan á Selfossi lagði hald á nokkurt magn meintra fíkniefna í fórum karlmanns á fimmtugsaldri, sem var á ferð um bæinn á reiðhjóli í morgun.

Lögreglu hafði borist ábending um að maðurinn væri að reyna að selja fíkniefni í bænum og hóf leit að honum. Hann fannst um tíuleytið í morgun en þegar hann varð lögreglu var reyndi hann að komast undan á hjólinu og síðan á hlaupum en lögreglan náði honum fljótlega.

Maðurinn var með sjö grömm af meintu amfetamíni og þrjú grömm af meintu kannabisefni í fórum sínum.

Manninum var sleppt að loknum yfirheyrslum.

Lögreglan gerði einnig húsleit á Selfossi í dag og þar fannst nokkurt magn kannabisefna, auk ofskynjunarsveppa í söluumbúðum og nokkuð af sterum.

Fyrri greinÍslandsmótið í póker hafið
Næsta greinLeikurinn snerist í síðasta fjórðungnum