Ægir tapaði 2-3 þegar liðið tók á móti Huginn í 1. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í dag. Sigurmark Hugins kom á 6. mínútu uppbótartíma.
Gestirnir mættu ákveðnari til leiks og komust yfir á 12. mínútu með marki Marko Nicolic úr vítaspyrnu.
Staðan var 0-1 í hálfleik en Ægismenn voru sterkari framan af seinni hálfleik og Ingvi Rafn Óskarsson jafnaði með frábæru skoti utan teigs á 59. mínútu.
Eftir jöfnunarmark Ægis færðist mikið fjör í leikinn þar sem liðin skiptust á um að sækja. Sverrir Garðarsson átti skot rétt framhjá marki Hugins á 69. mínútu en nokkrum andartökum síðar fengu gestirnir dæmda aðra vítaspyrnu. Nicolic fór aftur á punktinn og skoraði af öryggi.
En fjörið var ekki búið og á 77. mínútu jafnaði Milan Djurovic í 2-2 með góðu skoti yfir markvörð Hugins.
Allt stefndi í jafntefli en á sjöttu mínútu uppbótartíma fengu Huginsmenn aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Ægis. Boltinn barst inn á teiginn þar sem hinn 15 ára gamli Stefán Ómar Magnússon stangaði boltann í netið og tryggði Huginsmönnum stigin þrjú.
Næsti leikur Ægis er gegn KV á útivelli á föstudagskvöld.