Hópur ungra kvikmyndagerðarmanna frá Íslandi og Frakklandi tók sig til í sumar og fór hringinn í kringum landið til að sviðsetja og taka upp íslenskar draugasögur.
Ætlunin var að gera heimildamynd um íslenskar afturgöngur, Walkers, og nú þegar hafa fjórar draugasögur verið sviðsettar og teknar upp á sínum upprunaslóðum. Þar á meðal voru tvær sunnlenskar sögur, Höfðabrekku-Jóka og Loðni maðurinn.
Hópurinn leitar nú til almennings um að aðstoða sig við að klára viðtöl og eftirvinnslu á myndinni í gegnum áheitasíðuna Karolinafund.com.
Að baki verkefnisins stendur Collectif Panic, hópur ungra og upprennandi kvikmyndagerðarmanna frá Íslandi, Frakklandi og Kólumbíu. Hugmyndin að myndinni kviknaði í samtali Estherar Þorvaldsdóttur, menningarmiðlara, og bandaríska kvikmyndagerðarmannsins Bowen Staines um uppvakninga og komust þau að því að íslensku afturgöngurnar ættu verðskuldað að fá umfjöllun á kvikmyndaformi.
Fékk Esther þá til liðs við sig Diego Arias, æskulýðsfulltrúa, og Önnu Margréti Hrólfsdóttur, þjóðfræðinema, og fengu þau styrk frá Evrópu unga fólksins og Menningarráði Suðurlands til að taka upp útvaldar sögur.
Verkefnið er í senn framleiðsla heimildamyndar og lærdómsferli þar sem aðstandendur myndarinnar fengu tækifæri til að spreyta sig á sviðum sem þau höfðu áður ekki prufað.
Margir frábærir leikarar hafa komið að myndinni en þeirra á meðal er Helgi Sæmundur Guðmundsson úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur. Helgi er búsettur á Hellu en sunnlenskir meðleikarar hans voru m.a. Hornfirðingarnir Róslín Alma Valdemarsdóttir, Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir og Ingvar Þórðarson.
Karolinafund er íslenskt fyrirtæki sem heldur uppi síðu þar sem hver sem er getur heitið á spennandi verkefni áður en þau verða til. Hægt er að velja á milli mismunandi upphæða og þannig getur fólk keypt DVD eintak af myndinni áður en hún kemur út.
Það sem er þó einstaklega áhugavert við fjármögnuna er að styrki einstaklingur verkefnið um 4.000 evrur (ca. 650.000 kr.) fær sá hinn sami að velja aðra íslenska draugasögu sem myndi bætast við í myndina. Kvikmyndatökuhópur mætir þá á upprunaslóð draugsa og ásamt leikurum mun hann sviðsetja söguna og taka upp.
Höfðabrekku-Jóka
Jórunn Guðmundsdóttir úr Mýrdal deyr úr bræði þegar hún kemst að því að dóttir hennar er þunguð eftir vinnumann. Dauðinn kemur þó ekki í veg fyrir að hún rati aftur til vinnumannsins og ráðleggur prestur honum að flýja til Vestmannaeyja í 20 ár. Þegar vinnumaðurinn snýr loks aftur tekur Jóka á móti honum eftir að hafa gengið um sveitirnar í hefndarhug án nokkurrar hvíldar því heift hennar var svo gríðarleg.
Loðni maðurinn
Hefur það margoft komið fyrir að fólk gangi fram á látna menn sem skolast hafa upp á Íslandsstrendur. En í Meðallandi gekk saga um að kafloðinn maður sem líktist skrímsli hefði rekið að landi og hóf að ásækja prestinn sem af góðmennsku einni saman hafði ákveðið að grafa manninn að kristnum sið.