„Söfnin sem þarna um ræðir og fá aukin framlög eru Byggðasafn Árnesinga, Sjóminjasafnið á Eyrarbakka, Listasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Árnesinga. Þeir liðir sem er gert ráð fyrir að lækki eru t.d. Vor í Árborg og ýmsar hátíðir sem eru haldnar í sveitarfélaginu á sumrin.
Þetta getur breyst og endanleg niðurstaða mun ekki liggja fyrir fyrr en við síðari umræðu fjárhagsáætlunar sem fer fram í desember,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, þegar hún var spurð hvaða liðir hækkuðu og hvaða liðir lækkuðu í menningarmálum hjá sveitarfélaginu á næsta ári.
Í fyrri umræðu um fjárahagsáætlunina kemur fram að framlög til menningarmála skuli lækka 2,3 milljónir króna á milli ára. Í því felst að framlag til safna hækkar um 2,4 milljónir króna en framlag til hátíðarhalda lækkar um 2,2 milljónir og ýmsir aðrir styrkir og framlög lækka jafnframt um 2,2 milljónir króna.