Verulega dró úr gosinu í Grímsvötnum í nótt og síðan þá jafnt og þétt í morgun.
Gosmökkurinn stendur nú í um þriggja til fimm kílómetrahæð og er gosefnaframleiðsla umtalsvert minni. Mjög sterk norðanátt er enn á svæðinu sem feykir ösku til suðurs, dregur úr vindi síðar í dag að sögn Veðurstofunnar.
Á hverri sekúndu koma um 100 tonn af gosefnum upp úr gosstöðvunum í Grímsvötnum. Í gærkvöldi voru um þúsund tonn að koma upp og hefur því dregið umtalsvert úr gosefnaframleiðslu. Til samanburðar þá komu um tíu til tuttugu þúsund tonn á sekúndu þegar gosið stóð sem hæst á sunnudaginn. Gosórói hefur hins vegar haldist svipaður.
Engir djúpir skjálftar né eldingar hafa mælst við gosstöðvarnar síðan um miðjan dag í gær að sögn Veðurstofunnar.
Gosið er sprengigos með mikilli gosösku. Ísinn í kring bráðnar og vatn í Grímsvötnum verður til þess að gosefnin tætast og þannig myndast þessi mikla aska. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir litlar líkur á því að gígurinn þorni á meðan á gosinu standi.
„Það er nóg vatn í jöklinum og vatnsborðið í Grímsvötnum stýrir vatnsborðinu. Þegar að svona mikið gos er þá hleðst ekkert upp neinn gígur nema á jöklinum umhverfis og þá er nógur aðgangur vatns að gígnum og við höfum heldur engin dæmi um það hafi gerst í Grímsvötnum,“ segir Magnús Tumi í samtali við Vísi.
Hann segir því líklegt að svo lengi sem gos standi í Grímsvötnum verði það öskugos.
„Við verðum að vera viðbúin við því og getum ekkert útilokað að það renni hraun en það er ekkert líklegt að það geri það meðan gosið er sæmilega öflugt,“ segir hann.