Björgunarsveitin Kári í Öræfum og Björgunarfélag Akraness halda svokallað Drekamót sunnudaginn 10. júní næstkomandi kl. 13:00 við Samgöngusafnið í Skógum.
Um árabil hafa tveir bryndrekar verið staðsettir hjá tveimur björgunarsveitum á Íslandi, Björgunarfélagi Akraness og Björgunarsveitinni Kára Öræfum.
Bryndrekarnir eru sérútbúnir í óverðursaðstoð og hafa í gegnum tíðina verið mikið notaðir í útköllum sveitanna tveggja. Drekarnir voru gjöf frá þýskum stjórnvöldum en íslenska utanríkisráðuneytið afhenti þá sveitunum tveimur til umsjónar og notkunar í starfi sínu.
Bryndrekarnir, sem ganga undir nöfnunum Talíbaninn og Drekinn, hafa mikið verið notaðir í björgunarstörfum hjá sveitunum og gegna þar mikilvægu hlutverki.
Í tilefni 90 ára afmæli Landsbjargar þetta árið ákváðu björgunarsveitirnar tvær að halda svokallað Drekamót á Byggðasafninu á Skógum við Samgöngusafnið. Þar geta gestir og gangandi skoðað drekana ásamt því að fá tækifæri til þess að ræða við björgunarsveitarmenn sem vinna með drekana í starfi sínu.