Það voru heldur betur ánægðar vinkonur af Suðurlandi sem komu til Getspár í morgun með vinningsmiðann góða í Lottó frá því 26. mars en vinningurinn hljóðaði upp á rúmlega 14,1 milljón króna.
Aðra þeirra hafði dreymt fyrir vinningi og kvöldið áður hafði henni klæjað í lófann og hún taldi það merki um peninga. Vegna draumsins og hugboðs um hugsanlegan vinning ákváðu þær að leggja saman í púkk og þar sem þær voru staddar á Selfossi ákváðu þær að koma við í Olís og splæsa í 10 raða seðil með Jóker en hingað til höfðu þær látið sér nægja að kaupa sitt hvora röðina svona rétt til að vera með og styrkja gott málefni.
Um kvöldið var farið á textavarpið og athugað með vinningstölur kvöldsins og kom þá í ljós að þær voru með allar tölur réttar, voru samt ekki sannfærðar og fóru því líka á netið til að kanna hvort að þetta gæti örugglega verið. Þegar þær voru búnar að fá þetta staðfest bæði á neti og textavarpinu sprungu þær úr hlátri og hoppuðu og dönsuðu saman um stofuna.
Þær eru ekki búnar að ákveða hvernig þær ætla að ráðstafa vinningnum en þar sem þær eiga báðar bíla frá því á síðustu öld fannst báðum líklegt að hluti vinningsins færi í að kaupa sér nýrri bíla og grynnka síðan aðeins á skuldum.