Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar og Bláskógabyggðar unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Geysi. Drögin að áætluninni hafa nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Geysissvæðið var friðlýst sem náttúruvætti þann 17. júní í fyrra. Markmið friðlýsingar svæðisins sem náttúruvættis er að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstakur á lands- og heimsmælikvarða.
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Geysi er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við rétthafa lands og sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun Geysis og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um.
Í áætluninni er lögð fram stefnumótun til 10 ára, ásamt aðgerðaáætlun. Frestur til að skila inn athugasemdum eða ábendingum er til 6. ágúst 2021.