Það var mikið líf og fjör, dekkjavæl og drulluskvettur á árlegum Delludegi bílaklúbbanna á Suðurlandi sem fram fór við Hrísmýri á Selfossi í dag.
Dagurinn hófst á kassabílaralli þar sem frumlegasti og flottasti bíllinn voru verðlaunaðir. Að því loknu sýndu go-cart ökumenn listir sínar og síðan var komið að flatrekssýningu með miklum reyk og látum.
Jeppamenn tóku síðan yfir dagskrána þar sem fjöðrunarkerfi jeppa voru reynd á rampi og deginum lauk með drulluspyrnu þar sem ýmis farartæki reyndu að komast yfir drullupytt með miklum tilþrifum en mismiklum (og yfirleitt litlum) árangri.
Myndasyrpa frá Delludeginum mun birtast á sunnlenska.is á morgun.