Drumbabót, fornskógurinn á Markarfljótsaurum, eyddist í jökulhlaupi veturinn 822-23 eftir Krist samkvæmt nýjum aldursgreiningarniðurstöðum.
Við eyrar Þverár í Fljótshlíð er að finna einna best varðveittu fornskógaleifar á landinu. Svæðið kallast Drumbabót en það einkennist af miklum fjölda trjádrumba sem standa 20-60 cm upp úr sandi. Rannsóknir hafa sýnt að hér er um birki að ræða.
Mælingar á árhringjabreiddum trjánna sýndu einnig að trén drápust samtímis, vegna þess að árhringurinn næst berki myndaðist sama árið í öllum trjánum. Má leiða líkum að því að fornskógur þessi hafi eyðst í einu af þeim jökulhlaupum sem farið hafa til vesturs niður Markarfljótsaura, en upptök stærri jökulhlaupa eru í flestum tilvikum undan Mýrdalsjökli vegna eldsumbrota í Kötlu.
Árið 2004 voru gerðar aldurgreiningar á forntrjánum með geislakolsgreiningu og niðurstöður þeirra sýndu að skóginum var grandað fyrir um 1200 árum síðan (755-830 e.Kr.).
Nú í vetur voru gerðar mjög nákvæmar geislakolsmælingar (C-14) á einu fornbirkinu frá Drumbabót og voru allir árhringirnir mældir í því sýni. Mælingarnar fóru fram við ETH Háskólann í Zurich. Niðurstöður þeirra greininga sýndu að árhringurinn næst berki í fornbirkinu myndaðist sumarið 822 e.Kr.
Þessi nákvæma aldursgreining byggir á því að árin 774 og 775 e.Kr urðu mjög miklar breytingar á geislakoli í andrúmslofti og er þessi atburður „skráður“ í árhringjum forntrjánna í Drumbabót. Hlaupið sem grandað skóginum á Markarfljótsaurum átti sér því stað veturinn 822-23 e.Kr., mjög líklega vegna eldgos í Kötlu.
Hér er því komin „dagsetning“ á síðasta hamfaragosi í Kötlu sem fór í vestur og yfir Markarfljótsaura. Hér er um að ræða nákvæmustu aldursgreiningu með geislakolsaðferð á einstökum atburði sem framkvæmt hefur verið á Íslandi.
Frá þessu er greint á heimasíðu Skógræktar ríkisins