Drýlar og dældir í jöklinum

Hann er ófrýnilegur Mýrdalsjökullinn víða og hættulegur yfirferðar líkt og má sjá á þessari mynd sem Benedikt Bragason tók nýverið í Lakalandi, ofan við Sólheimajökul.

Askan sem kom úr Eyjafjallajökli hefur með hjálp sólarinnar myndað krappa drýla í ísnum svo hann verður nánast ófær öllum nema fuglinum fljúgandi. Um sama leyti í fyrra var þar sléttur snjór og sleðaplan vélsleðaleigunnar Arcanum sem Benedikt og Andrína á Ytri-Sólheimum í Mýrdal starfrækja.

Benedikt segist aldrei hafa séð viðlíka sjón og blasir við þegar upp á jökulinn er komið. Hann segir nokkuð um að jeppamenn leggi leið sína inn að jökli en vegurinn sé nánast ónýtur eftir mikla umferð þar um þegar eldgosið á Fimmvörðuhálsi stóð yfir.

Fáist ekki fjármagn í vegaframkvæmdir verður erfitt að bjóða upp á ferðaþjónustu á svæðinu að sögn Benedikts.

Fyrri greinHerjólfi siglt til Þorlákshafnar
Næsta greinNiðurskurður kominn yfir þolmörk