Vaskur hópur sjálfboðaliða mætti í morgun að rústum Hamarshallarinnar í Hveragerði sem sprakk í óveðrinu þann 22. febrúar síðastliðinn.
Verkefni dagsins var að fjarlægja dúkinn af sökklinum en Sjóvá, tryggingafélag Hveragerðisbæjar, eftirlét Hamri dúkinn til þess að nota í fjáröflun.
Hamar auglýsti dúkinn til sölu á 1.500 krónur fermetrann og nú þegar eru um þrjúþúsund fermetrar seldir, um það bil helmingurinn af efninu, og eru kaupendurnir allt frá gróðurhúsaeigendum upp í byggingarverktaka. Dúkurinn var skorinn í ræmur í dag og greinilegt eru að þær eru til ýmissa hluta nytsamlegar.
Það var góð stemning hjá sjálfboðaliðunum í dag sem unnu verkið með bros á vör og í framhaldinu getur knattspyrnudeild Hamars hafið æfingar á gervigrasinu sem var inni í höllinni.



