Þrátt fyrir mikla vatnavexti síðustu sólarhringa kom ekki til þess að loka þyrfti bráðabrigðabrúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Vegagerðin segir það hafa bjargað brúnni að grafa djúpa rás í árfarveginn, þannig að meira vatn kæmist undir brúna. Hefði farvegurinn ekki verið dýpkaður hefði þurft að rjúfa veginn beggja vegna brúarinnar en til þess kom ekki og er ástandið nú orðið eðlilegt.
Gríðarlega mikið vatn var í ám á öllu Suðurlandi í gær, ekki bara í Jökulsánni heldur til dæmis einnig í Bakkakotsá og Svaðbælisá.
Bráðabrigðabrúin er reist á 12 m löngum stálstaurum sem reknir eru niður í árfarveginn þannig að það var gott svigrúm var til að dýpka undir miðri brúnni. Í gær hækkaði jafnt og þétt í ánni allan daginn en lítið lón fyrir framan sporð Sólheimajökuls tempraði hækkunina lítilega og tafði hana. Vatnshæðin varð mest um 800 cm í gærkvöldi og segir Vegagerðin að ekki hafi mátt hækka mikið meira til að grípa hefði þurft til aðgerða.