Matvælastofnun minnir dýraeigendur á að huga vel að dýrum sínum á meðan á flugeldaskotum stendur um áramótin.
Slíkar sprengingar kunna að valda dýrunum ofsahræðslu og geta þau valdið slysum á sjálfum sér og öðrum við slíkar aðstæður. Hægt er að fyrirbyggja slys með því að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana fyrir gamlárskvöld og þrettándann.
Dýraeigendur, sérstaklega þeir sem eiga hunda, ketti og hesta, kannast vel við þann óróa og angist sem dýr þeirra ganga í gegnum á þessum tíma vegna látanna sem fylgir flugeldaskotum. Dæmi eru um að hundar sleppi og hlaupi fyrir bíla eða á fjöll. Hestar úti í haga eru sérlega í hættu. Fjölmörg dæmi eru um að hestar hafi fælst við flugelda, brotist út úr girðingum og hlaupið til fjalla eða í veg fyrir bílaumferð, og valdið slysum á sjálfum sér og öðrum. Hestar eru mikil hópdýr svo ef einn hleypur af stað getur allur hópurinn fylgt. Einnig eru margir komnir með hesta á hús á þessum tíma og farnir að stunda útreiðar. Óþarfi er að lýsa því hvað getur gerst ef flugeldum er skotið upp rétt hjá eða yfir fólki við útreiðar.
Matvælastofnun vekur athygli á því að í reglugerð um skotelda er leyfilegur skottími skemmri en áður. Almenn notkun flugelda er leyfð frá 28. desember til 6. janúar frá kl. 10:00 til 22:00 og alla nýársnótt. Mikilvægt er að virða þessi takmörk til að gefa dýraeigendum kost á að viðra dýr sín án hættu á ofsahræðslu vegna flugelda.
Matvælastofnun beinir því til almennings, og sérstaklega foreldra og forráðamanna barna og unglinga, að sýna þá tillitsemi við dýrin og eigendur þeirra að eingöngu stunda flugeldaskot, hvellhettusprengingar og nota ýlur á gamlárskvöld eða á þrettándanum. Það hjálpar dýraeigendum við að grípa til ýmissa fyrirbyggjandi ráðstafana.