Dýraríkið opnar á nýjum stað á Selfossi á morgun, laugardag, nánar tiltekið að Austurvegi 54. Við flutningana stækkar verslunin um 200 fermetra.
„Við opnum nýja og glæsilega verslun á þessum frábæra stað. Verslunin er öll að færast í þessa átt. Það er ósköp einfalt mál, það er búið að eyðileggja hinn hluta bæjarins, það er ekki verslun þar lengur, því miður,“ segir Axel Ingi Viðarsson, eigandi Dýraríkisins, í samtali við sunnlenska.is.
„Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur og eftirspurn eftir fleiri vörum. Til þess að geta orðið við því þá þurfum við náttúrulega að stækka og færa okkur. Það er málið – að vera á réttum stað. Hér er nóg af bílastæðum og umferðin er hér, það er bara þannig. Það var kominn tími til að fara upp á næsta level. Það er búið að taka mörg ár að koma þessu upp og nú erum við bara á góðu flugi.“
„Við erum með allt fyrir gæludýrin, fimm þúsund strikamerki á skrá hjá okkur. Það hefur allt fengist á heimasíðunni og í búðinni okkar í Reykjavík en núna náum við að koma því hér fyrir,“ segir Axel.
Hágæða vörur og góð þjónusta
Axel segir að það sé ekki spurning að fólk sé farið að hugsa mun betur um gæludýrin sín. „Fólk er meðvitað um að velja rétta vöru fyrir gæludýrin sín. Velja til dæmis ekki hundamat sem er fullur af maís. Ekkert dýr á jörðinni meltir maís – hann kemur út eins. Alls 75% af innfluttum hunda- og kattamat inniheldur maís í fyrsta eða öðru innihaldi. Það er ekkert svoleiðis hjá okkur og við pössum upp á að bjóða hágæða vöru. Þetta er sérvöruverslun, hér er ekki þessi ódýra stórmarkaðsvara. Við erum með gæði og þess vegna kemur fólk aftur, vegna þess að það sér árangur.“
„Við leggjum mikla áherslu á að veita góða þjónustu – það er númer eitt, tvö og þrjú. Við erum með frábæra starfsmenn sem hafa þekkingu á vörunum og muna eftir þér. Þetta er persónuleg þjónusta og það er það sem keyrir okkur hratt upp,“ segir Axel að lokum.