Að minnsta kosti þrettán kindur hafa drepist á tveimur vikum vegna dýrbíta sem ganga lausir í Rangárvallasýslu.
Á visir.is kemur fram að allt bendi til þess að dýrbítarnir séu hundar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Sjö kindur fundust dauðar í Vestur-Landeyjum aðfaranótt laugardags ásamt þremur særðum lömbum. Í vikunni áður var búið að drepa þrjú lömb í Austur-Landeyjum og þá fundust jafnframt þrjú dauð lömb í Fljótshlíðinni.
Lögreglan telur að annar hundurinn sé ljós, hugsanlega íslenskur, en hinn dökkur, líklega brúnn, með hvítan blett á bringunni. Hún hvetur hundaeigendur á svæðinu til að gaumgæfa hvort dýr þeirra haldi sig heima og biður þá, sem eiga hunda sem lýsingin gæti átt við, að hafa samband hafi dýrin verið í burtu óvenju lengi síðustu daga.
Lögreglan á Hvolsvelli biður fólk í Rangárvallasýslu um að fylgjast með hundum sínum á svæðinu og láta vita ef hunda er saknað. Einnig eru bændur beðnir um að fylgjast með fé sínu.