Að undanförnum vikum hefur verið talsvert um tófu í Mýrdalnum og hafa sjö dýr verið felld undanfarna daga.
Ólafur Steinar Björnsson, bóndi á Reyni í Vík, ásamt Kjartani Stefánssyni, refaskyttu, felldu tvö dýr í Dyrhólaey í dag. Um var að ræða hlaupadýr sem voru ekki á greni, gelda læðu og ref að sögn Ólafs Steinars.
Ólafur Steinar segir veiðar hafa hafist 6. júní síðastliðinn og að mikið sé um tófu á svæðinu. Hann segir tófuna valda miklum skaða og að ljóst sé að hún sæki ekki einungis í æðavarp á svæðinu.
„Það er mikið um tófu hér og dýrbítur í Háfelli skammt austan við Vík,“ segir Ólafur Steinar í samtali við mbl.is og bætir við að hún sé mjög ágeng á fuglalíf. Hann segir að á þeim svæðum sem lítið er um fugla, sökum öskufalls, muni refurinn leita á lömb.
Ólafur Steinar segist hafa fellt ref og læðu ásamt átta hvolpum síðastliðna nótt við veiðar inni í Sólheimaheiði. Aðstæður til veiða á því svæði eru mjög slæmar sökum mikillar ösku og slæms skyggnis. „Í fyrra upprættum við tólf greni og meðaltal á hvolpum voru sex. Það sem af er höfum við fundið fimm greni í ár,“ segir Ólafur Steinar.
Fram til þessa hafði ríki komið til móts við sveitarfélögin og greitt helming kostnaðar við veiðarnar en slíkt fyrirkomulag hefur verið lagt af. Talsverður kostnaður fylgir veiðum sem þessum og er því ljóst að sveitarfélögin sitja ein uppi með kostnaðinn. „Ég hef ekki enn fundið þann mann sem skilur þetta. Umhverfisstofnun er að vinna að því að vernda æðavarp og á sama tíma er stuðningur við sveitarfélögin við að halda tófunni niðri skorinn niður,“ segir Ólafur Steinar.
Mbl.is greindi frá þessu.