Basilikusmjör frá Á Ártanga í Grímsnesi vann bronsverðlaun á Íslandsmeistaramótinu í matarhandverki sem haldið var á Hvanneyri á dögunum.
Á Ártanga er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað til þess að auka nýtingu á afurðum og minnka matarsóun hjá Gróðrarstöðinni Ártanga.
Minnka matarsóun og umhverfissporið
„Það hefur lengi verið hugmyndin að gera eitthvað úr þeim jurtum sem ekki nýtast hjá okkur svo að við þurfum ekki að henda þessum æðislegu jurtum. Þetta varð svo að veruleika þegar Bjarki Sól í Bragganum í Birtingaholti kom til okkar og gerði dýrindis kræsingar úr jurtunum okkar sem við buðum fólki að smakka á opna deginum sem er árlegur viðburður hér í sveitinni,” segir Sigurdís Edda Jóhannesdóttir, annar eiganda gróðrarstöðvarinnar.
Á Ártanga eru ræktað fjölbreytt úrval af hágæða kryddjurtum, til dæmis basilika, kóriander og mynta, svo fátt eitt sé nefnt en vörurnar eru seldar á veitingastaði og í verslanir um land allt.
Bjarki Sól segir að einn af helstu drifkröftum þessa verkefnis sé að minnka matarsóun og minnka umhverfissporið.
„Þess vegna var tekin sú ákvörðun að hafa vörurna í gleri sem hægt er að endurnýta. Við viljum helst að krukkurnar fari í beina endurnýtingu og þess vegna setjum ekki límmiða á þær. Með endurnýtingu að leiðarljósi viljum við líka gera uppskriftinar okkar aðgengilegar á Facebook síðu Á Ártanga,” segir Bjarki.
Sítrónumelissan var lausnin
„Okkur er umhugað um hvað við setjum ofan í okkur og viljum því ekki bjóða upp á vörur stútfullar af ónáttúrulegum rotvörnum. Þetta var áskorun en eftir margar tilraunir fundum við út að lausnin var allan tímann fyrir framan okkur. Sítrónumelissan okkar er full af phenolic sýru sem er bæði gerladrepandi og kemur í veg fyrir sveppagró. Með þessu getum við boðið upp á afurðir með ásættalegan líftíma sem eru bæði hollar og góðar,” segir Edda að lokum og bætir við að þau Bjarki séu mjög stolt af þessu verkefni og góða samstarfi Ártanga og Braggans.