„Hér fellur minna rusl til yfir vetrartímann, með þeim afleiðingum að við höfum minna hráefni til kyndingar,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.
Hún, ásamt skipulags- og byggingarfulltrúa hreppsins, hafa skoðað og farið yfir kostnað við orkuöflun íþróttamiðstöðvarinnar í tengslum við sorpbrennslu með tilliti til hagkvæmni.
„Það er lítið við þessu að gera en að spara,“ segir Eygló en sveitarstjórn hefur beint því til starfsfólks íþróttamiðstöðvarinnar að gæta ítrustu sparsemi í rekstri mannvirkjanna. Bæði sundlaug og íþróttahús eru kynt með orku sem fæst af brennslu sorps í sorpbrennslustöðinni á Kirkjubæjarklaustri.
Segir Eygló að á meðan hægt sé að nýtast við orkuframleiðsluna úr sorpstöðinni þurfi ekki að kaupa rafmagnið til kyndingar bygginganna annarsstaðar frá og það sé jákvætt fyrir sveitarfélagið.