Dýrt ljósleiðarakerfi

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur verið kynnt úttekt verkfræðistofunnar Eflu hf á forhönnun ljósleiðarakerfis og kostnaðarmati við uppsetningu.

Að sögn Ingibjargar Harðardóttur, sveitarstjóra, var þetta könnun á því hvar búið væri að koma ljósleiðaranum fyrir. Í ljós hafi komið að víða sé ekki búið að tengja ljósleiðarann en í skýrslunni er gert ráð fyrir ljósleiðara inn á öll lögbýli í sveitarfélaginu.

„Þetta er ákaflega dýrt,“ segir Ingibjörg, „og óvissuþættirnir eru mjög margir.“ Hún bendir á að á mörgum lögbýlum hafi ekki verið búseta lengi og í sumum tilfellum þarf að leggja ljósleiðarann langa leið að viðkomandi bæjum. Þá er ekki víst að allir eigendur lögbýla vilji taka þátt í kostnaði við lagninguna.

Sveitarstjórn hefur ekki enn tekið afstöðu til skýrslu Eflu en hún hafi fyrst og fremst verið ætluð til að skoða framtíðarmöguleika á ljósleiðaravæðingu innan sveitarfélagsins.

Fyrri greinKláruðu vikuna með knúsi
Næsta greinSogn hagkvæmari kostur en Bitra