Félagið Lén ehf. hefur kynnt hugmyndir um uppbyggingu ferðaþjónustu á tveimur stórum lóðum í Hveragerði, þe. þar sem Eden og tívolí voru áður.
Félagið hefur fengið vilyrði til uppbyggingar á Edenlóðinni frá Sparisjóði Suðurlands sem eignaðist hana í kjölfar brunans í Eden, en Hveragerðisbær eignaðist nýverið tívolílóðina að Austurmörk 25, en hún var áður í eigu fasteignafélagsins Gaupnis.
Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt að halda lóðinni fyrir Lén ehf til 1. febrúar svo fyrirtækið hafi möguleika á að kanna hvort starfsemi á báðunum reitum geti orðið samhliða. Aðstandendur Léns ehf eru þeir Páll Gíslason, sem rekur starfsemi í Kerlingafjöllum og Jóhann Ísleifsson garðyrkjubóndi og fyrrum bæjarstjórnarmaður í Hveragerði. Fyrirtækið er skráð til heimilis á Seltjarnarnesi.
Svæðið sem um ræðir er talsvert stórt, Eden reiturinn er 12 þúsund fermetrar og tívolílóðin enn stærri. Jóhann staðfesti í samtali við Sunnlenska að fyrirhugað væri að koma á fót starfsemi í líkingu við þá sem var í Eden.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði segist taka vel í þær hugmyndir enda hafi vilji bæjaryfirvalda að styðja við frekari áform um ferðaþjónustu á svæðinu.