Óvíst er hvort götulýsing verði sett upp við Þrengslaveg eins og vonir margra Þorlákshafnarbúa hafa staðið til en þá er farið að lengja eftir framkvæmdum.
Þegar Sunnlenska fór á stúfana fengust þau svör hjá OR að málið væri hjá Vegagerðinni. Þar fengust þau svör að Vegagerðin hefði sent OR bréf snemma árs 2009 þar sem fram kom að Vegagerðin gerði kröfu um vottaða staura ef þeir yrðu settir upp og einnig að Vegagerðin gæti ekki sætt sig við að staurar yrðu settir á malarpúða út frá veginum, því það gengur illa upp umferðaröryggislega og því þyrfti hugsanlega að breikka allan veginn til að koma ljósastaurum fyrir.
Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, hefur ekki borist svar frá OR um málið síðan.
Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að deildar meiningar eru um gagnsemi lýsingar við þjóðvegi í dreifbýli hvað varðar umferðaröryggi, enda sjaldnast notuð erlendis við álíka aðstæður og t.d. á Þrengslavegi, þar sem umferð er tiltölulega lítil og umferðarhraði mikill.
Lýsing vegarins um Þrengslin var hluti af samkomulagi því sem gert var á milli OR og sveitarfélagsins Ölfuss um virkjun á Hellisheiði í apríl 2006. Verkinu átti að vera lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi lægju tímanlega fyrir.