Fulltrúar Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar lögðu fram tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi í Árborg um að farið verði í átak í eflingu hinsegin fræðslu í grunnskólum Árborgar.
Í tillögunni er lagt til að Árborg leitist við að gera samstarfssamning við Samtökin ‘78 um fræðslu og ráðgjöf við nemendur og starfsfólk grunnskólanna líkt og dæmi eru um úr öðrum sveitarfélögum.
Í greinargerð með tillögunni segir að hinsegin ungmenni upplifi gjarnan mikinn skort á upplýsingum, umræðu og fyrirmyndum og eiga í erfiðleikum með að þróa jákvæða sjálfsmynd.
„Efling hinsegin fræðslu getur gert þeim auðveldara að takast á við þær tilfinningar sem tengjast kynhneigð og kynvitund. Auk þess getur hinsegin fræðsla verið mikilvægur liður í að útrýma fordómum og uppræta hatursfulla orðræðu gegn hinsegin einstaklingum,“ segir í greinargerðinni.
Í umræðum um tillöguna kom fram að Forvarnahópur Árborgar hafi lagt áherslu á hinsegin fræðslu og lögð hafi verið drög að samningi við Samtökin ’78 um fræðslu til fagfólks, foreldra, nemenda í 10. bekk og fleiri og um ráðgjafarþjónustu sem samtökin veita.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða en í framhaldinu verður henni vísað til fræðslunefndar og íþrótta- og menningarnefndar.