
Málmmælingar í neysluvatninu í Hveragerðisbæ hafa leitt í ljós að engin óvenjuleg gildi mælist í vatninu. Rannsóknarvinna er enn í gangi en nú er heildstæð efnagreining í vinnslu.
Að sögn Péturs G. Markan, bæjarstjóra, hafa bæjaryfirvöld óskað eftir því við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands að sú vinna fái forgang.
„Veitur hafa reynst okkur afar vel og þau sýni sem þeirra starfsmenn tóku eru væntanleg og geta mögulega vísað okkur áfram. Starfsmenn tæknideildar ásamt bæjarstjóra halda daglega stöðufundi þar sem farið er yfir stöðu hvers dags og verkefni dagsins skipulagt. Þá hafa starfsmenn bæjarins fylgt eftir ábendingum frá íbúum og athugað hjá þeim vatnsgæði. Öll þessi vinna púslar saman að lokum mynd sem segir okkur hver orsökin er,“ segir Pétur og bætir við að áfram verði unnið markvisst og örugglega að málinu þangað til það leysist.