Skömmu fyrir miðnætti urðu lögreglumenn við almennt umferðareftirlit á varir við bifreið sem var ekið norður Þingvallaveg við Steingrímsstöð og hugðust kanna með ástand ökumanns og bifreiðar.
Þegar ökumanni var gefið merki um að stöðva aksturinn jók hann hins vegar hraðann og neitaði að stöðva akstur bifreiðarinnar og hófu lögreglumenn eftirför eftir bifreiðinni.
Eftirför lögreglu stóð óslitið frá Þingvallavegi, gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum og inn á Kjósaskarðsveg. Settur var upp lokunarpóstur á Kjósaskarðsvegi við Hvalfjarðarveg og er ökumaður varð þess var stöðvaði hann bifreiðina og bakkaði svo á mikilli ferð framan á lögreglubifreiðina sem hafði veitti honum eftirför. Lögreglubifreiðin var nánast kyrrstæð þegar áreksturinn varð.
Ökumaður bifreiðarinnar slapp óslasaður frá árekstrinum en lögreglumenn hlutu minniháttar áverka. Lögreglubifreiðin er að öllum líkindum ónýt eftir áreksturinn. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Lögreglan á Suðurlandi naut aðstoðar fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, sérsveitar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Vesturlandi við aðgerðina.