Í kvöld var hafist handa við að fella níu stórar aspir við Austurveginn á Selfossi. Það er gert að beiðni lögreglunnar og Vegagerðarinnar til að auka öryggi gangandi vegfarenda.
Ekki eru allir á eitt sáttir við þessar aðgerðir og ein þeirra er Ragnhildur SIgurðardóttir. Hún tók sér stöðu og faðmaði fyrsta tréð í góða stund áður en það var fellt. Fleiri íbúar voru mættir á svæðið til þess að láta í ljós óánægju sína.
„Ég var bara að faðma tréð og þakka því fyrir að vera hérna. Ég er svo sár yfir því að það sé verið að taka þessi tré sem eru búin að þjóna okkur vel, gefa okkur súrefni og skjól og hreinsa óhreinindin frá bílunum. Þau gegna mjög mikilvægu hlutverki. Ég er mjög óánægð með þessa framkvæmd og ósátt og ekki síst við það að skógfræðingar hér á Selfossi hafi ekki verið hafðir með í ráðum. Ég held að bæjarbúar hafi ekki vitað af þessu, ég frétti þetta bara í morgun og ég er svo hissa, ég á ekki orð. Þannig að ég vildi kveðja tréð og þakka því fyrir, ég er svo ofboðslega mikill náttúruunnandi og ég veit að trén hafa tilfinningar,“ sagði Ragnhildur í samtali við sunnlenska.is.
Sáum ekki neinn annan kost í stöðunni
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, var á vettvangi. Hann segir að tildrög þessa hafi verið ábending sem kom frá lögreglu eftir ósk vörubílstjóra sem taldi að trén skyggðu á sjónlínu við gangbrautir og takmörkuðu öryggi.
„Þetta erindi frá lögreglu var tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar í sumar þar sem nefndin tók undir áhyggjur lögreglu. Síðan vorum við á fundi nýlega, ég og sviðsstjóri mannvirkjasviðs með Vegagerðinni og þar mæltist Vegagerðin, sem er veghaldari hér, til þess að við fjarlægðum aspir til að bæta sjónlínuna að gangbrautunum til þess að bæta umferðaröryggi. Vegagerðin taldi óásættanlegt að hafa þessi tré þar sem þau eru, þannig að við sáum ekki neinn kost í stöðunni annan en að bregðast sem fyrst við þessum tilmælum. Ef talin er stafa hætta af trjánum þá viljum við ekki bíða með aðgerðir,“ sagði Gísli og bætti við að í framhaldinu verið hugað að því að gróðursetja önnur tré sem hæfa betur á þessu svæði. „Þar hefur til dæmis verið nefnd súlublæösp, eins og er á Akureyri. Ég veit að garðyrkjudeildin mun vinna smekklega úr þessu eftir þetta, en auðvitað sér fólk á eftir gömlu góðu trjánum sínum.“
Hægt að ná góðum árangri með trjásnyrtingu
Björgvin Örn Eggertsson, skógfræðingur á Selfoss, er einn þeirra sem er óánægður með aðgerðina og hann var mættur á Austurveginn í kvöld til þess að fylgjast með.
„Frekar en að fella svona mörg tré hefði ég viljað sjá að menn hefðu verið með trjásnyrtingu sem hefði leitt til þess að sjónlínan væri betri á svæðinu. Á sínum tíma, þegar þessi tré voru sett niður, þá virtist hægjast á umferðinni. Ég held að núna þegar við förum að opna þetta þá fáum við aðeins betri sjónarhorn á gangbrautina en ég held að með góðri trjásnyrtingu, og með því að fella kannski eitt til tvö tré, en ekki níu, þá hefðum við náð mjög góðum árangri. Síðan þarf að viðhalda gróðrinum, það er eins og með flestallan trjágróður sem vex útfyrir það rými sem hann má vera á, þá bara klippir þú reglulega, einu sinni á ári og þá getur þú haldið þessu í skefjum,“ sagði Björgvin í samtali við sunnlenska.is.
Austurvegurinn verður lokaður í kvöld og fram á nótt á meðan unnið er að fella trén.