Aðal- og deiliskipulagstillögu vegna mölunarverksmiðju og nýrrar hafnar Heidelberg í Keflavík við Þorlákshöfn var hafnað með miklum meirihluta í íbúakosningu í Ölfusi.
Atkvæðagreiðslunni lauk í dag og voru atkvæði talin fyrr í kvöld. Rúm 70% íbúa kusu gegn fyrirhuguðum áformum og var kjörsókn 65,7%.
Áform um mölunarverksmiðjuna hafa verið mjög umdeild meðal íbúa Ölfuss síðan þau komu fyrst til umræðu fyrir tveimur árum. Fyrir hálfu ári mótmælti svo fyrirtækið First Water einnig þessum áformum en fyrirtækið hefur hafið á uppbyggingu landeldis á nálæga lóð við fyrirhugaða mölunarverksmiðju.
Ánægð með íbúa Ölfuss
Ása Berglind Hjálmarsdóttir, fulltrúi H-listans, í minnihluta bæjarstjórnar Ölfuss hefur barist hvað harðast gegn þessum áformum.
„Mér líður ótrúlega vel. Ég hef aldrei upplifað annan eins létti í lífinu. Ég er svo ánægð að íbúar í Ölfusi hafi kosið með framtíð Þorlákshafnar og leyft náttúrunni að njóta vafans í þessu verkefni,“ segir Ása Berglind í samtali við sunnlenska.is.
„Ölfus er í raun stútfullt af tækifærum þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífs og í þessari kosningu sýndu íbúar það vel að þeir vilja fá að hafa valið um það hvernig við byggjum upp atvinnuveginn í sveitarfélaginu. Það sem er líka mjög gott er hvað þessi niðurstaða var afgerandi.“
Þurfa frið til að heila samfélagsleg sár
Ása Berglind átti ekki endilega von á þessum niðurstöðum úr íbúakosningunum. „Í raun komu þessar afgerandi niðurstöður mér á óvart því að ég vissi alveg að það var stór hópur sem var hlynntur þessu verkefni en hópurinn sem var á móti því var greinilega mikið stærri.“
„Ég vona þetta fyrirtæki, Heidelberg með Þorstein Víglundsson fremstan í flokki, muni gefa íbúum í Ölfusi frið og að við fáum pláss til að heila þau sár sem mynduðust í samfélaginu á þessum tíma. Þessi barátta hefur verið mjög erfið fyrir marga og grimmileg á köflum.“
„Fyrir mitt leiti þá hef ég mætt mikilli andstöðu í bæjarstjórn, meðal meirihluta og bæjarstjórans sem hafa reynt að þagga niður í mér þegar ég hef verið að koma með gagnrýnin sjónarmið á þetta verkefni og upplifað persónuárásir inni í bæjarstjórn sem kjörinn fulltrúi, þar á meðal frá bæjarstjóranum sem er mjög fátítt,“ segir Ása Berglind að lokum.
Atkvæðin féllu þannig:
Já sögðu 374 eða 28,5%
Nei sögðu 924 eða 70,5%
Auðir og ógildir voru 12 eða 1%
Á kjörskrá voru 1.994. Alls kusu 1.310 og var kjörsókn 65,7%.