Um hádegisbil í gær barst Hafrannsóknastofnun á Selfossi tilkynning um dauða hnísu í Víkinni við Ölfusá.
„Það var hringt í okkur og sagt að það væri dauður hvalur eða lax í Víkinni fyrir neðan brúna. Ég hélt auðvitað að þetta væri frekar lax en hvalur enda finnast ekki hvalir í Ölfusá,“ segir Magnús Jóhannsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.
Allt mjög spúkí
Magnús fór á staðinn og fann þar hnísuna ofan á ísnum. „Ég tók myndir af hnísunni og mældi hana. Svo fer ég í hádegismat og ætlaði að kíkja aftur á hana eftir mat en þá var hún horfin. Þetta var allt mjög spúkí – ég hélt að þetta væri eitthvað gabb,“ segir Magnús og hlær.
Í millitíðinni höfðu sjúkraflutningamenn fundið hnísuna, tekið myndir af sér með henni og sent á visir.is og flutt hana svo með sjúkrabílnum til lögreglunnar. „Ég sá svo fréttina á Vísi og skildi þá hvað hafði orðið um hnísuna,“ segir Magnús og hlær dátt.
„Þetta er mjög skrítið og það er lang líklegast að hnísan hafi verið flutt og sett á þennan stað. Það hefur þó enginn gefið sig fram,“ segir Magnús.
Hafa sést í Jökulsárlóni
Magnús veit ekki dæmi þess að hnísur hafi fundist í ferskvatnsám. „Hnísa er hvalur sem lifir í sjó og getur gengið upp í ár. Það er til í dæminu að hnísa fari upp í ferskvatn en það er ekki þekkt hér á landi svo að ég viti til. Hnísur hafa sést í Jökulsárlóni en það er líka sjávarblendið lón,“ segir Magnús og bætir því við að hann sé þó enginn hnísusérfræðingur.
Jafn ótrúlegt og þegar Vanadísin sigldi upp Ölfusá
Magnús segir að von sé á Sverri Daníel Halldórssyni, hvalalíffræðingi hjá Hafrannsóknastofnun, á Selfossi til að skoða hnísuna. Þegar blaðamaður sunnlenska.is sló á þráðinn til Sverris þá tók hann undir orð Magnúsar að lang líklegast væri að einhver hafi komið hnísunni fyrir á ísnum á Ölfusá.
„Ég er alveg sammála um Magnúsi um það. Ef þetta hefði verið alveg niðri við Ölfusárós, þá hefði maður kannski gleypt þetta. Að hnísa finnist í Ölfusá eru jafn ótrúlegar fréttir og þegar Vanadísin sigldi upp ána,“ segir Sverrir hlæjandi og vitnar þar í sögufrægt aprílgabb Ríkisútvarpsins árið 1957.
Auglýsir eftir upplýsingum um gjörninginn
Næst á dagskrá hjá Sverri er að taka erfðasýni úr hnísunni og kíkja í maga hennar. „Það er svona það helsta sem okkur fýsir að sjá.“
„Hnísan gæti hafi dottið af bílpalli en það er ólíklegt. Af myndunum að dæma er þetta karldýr og um 70 kílógrömm að þyngd. Ef menn vita söguna af því hvernig þessi hnísa lenti á ísnum í Ölfusá þá væri fróðlegt að vita hana. Ég auglýsi eftir upplýsingum um þennan gjörning,“ segir Sverrir kátur í bragði að lokum.