Síðastliðið laugardagskvöld barst Björgunarsveitinni Ingunni símtal þar sem tilkynnt var um mannlausan bát á reki á Laugarvatni.
Í samráði við lögreglu var ákveðið að sveitin færi strax af stað til að kanna málið frekar. Báturinn fannst fljótlega en hann hafði rekið frá landi í slæmu veðri.
„Við viljum sérstaklega þakka þeim sem hafði samband. Sveitin, ásamt öðrum björgunarsveitum í Árnessýslu hefur því miður þurft að taka þátt í mjög erfiðum útköllum síðustu ár í bæði vatni og straumvatni. Því verður okkur brugðið þegar við fáum svona útköll,“ segir í tilkynningu frá Ingunni en þar eru eigendur báta hvattir til að tryggja vel báta sína við vatnsbakkann, sérstaklega þegar veður er slæmt.