Í dag klukkan fjögur, þegar Rúmenía mætir Hollandi í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu, munu eigendur Takkó, Romano pasta, Samúelsson matbar og Röstí sjá um þrifin í mathöllinni á Selfossi.
Þetta er gert til að gefa ræstingafólkinu frí en þau sem sjá um þrifin í mathöllinni eru nánast öll frá Rúmeníu. Þau munu því geta horft á leikinn og stutt sitt lið á Brúartorginu í miðbænum en leikurinn er sýndur þar á risaskjá, eins og aðrir leikir á EM.
„Það voru nokkrar rúmenskar fjölskyldur sem komu saman hingað til Íslands fyrir nokkrum árum til að hefja nýtt líf. Upphaflega var þetta einn strákur sem kom hingað til lands til þess að vinna fyrir annað ræstingarfyrirtæki. Honum blöskraði svo standardinn hjá því fyrirtæki að hann ákvað að stofna sitt eigið fyrirtæki, Nacu. Hann fékk síðan fjölskylduna sína til að koma til Íslands og vinna hjá fyrirtækinu,“ segir Árni Evert Leósson, einn eigenda veitingastaðanna þriggja í mathöllinni.
Á allt öðrum mælikvarða
Sunnlenska.is spjallaði við Árna Evert, Andra Björn Jónsson og Tómas Þóroddsson í tilefni af leik Rúmenanna í dag. Þeir félagarnir segjast vera mjög ánægðir með þrifin í mathöllinni.
„Við höfum prufað þjónustu ýmissa fyrirtækja en þessi þjónusta hjá Rúmenunum er algjörlega yfirburðar og á allt öðrum mælikvarða. Þau eru líka alltaf að hjálpa okkur, henda til dæmis glösum í vél þó að þau séu ekki að vinna við það. Þau eru þvílíkt almennileg. Það skiptir þau máli að það sé allt snyrtilegt hérna,“ segir Andri.
„Þau voru mjög ánægð þegar þau fréttu að þau fengju frí á meðan á leiknum stendur og að við ætluðum að sjá um þrifin. Tommi verður þó örugglega aðallega að dæla í þau bjór,“ segir Árni hlægjandi að lokum.