Sveitarstjórn Skaftárhrepps vinnur nú að endurskoðun fjárhagsáætlunar 2011. Verið er að skoða eignasölu til að bæta lausafjárstöðuna og hafa tvær eignir þegar verið seldar.
Að sögn Guðmundar Inga Ingasonar, oddvita Skaftárhrepps, verða formenn nefnda og forstöðumenn stofnana kallaðir til við vinnu við áætlun næsta árs en nýr fundur hefur verið boðaður í sveitastjórn næstkomandi mánudag.
Eins og áður hefur komið fram í Sunnlenska er lausafjárstaða Skaftárhrepps mjög erfið og sagði Guðmundir Ingi að allra leiða væri leitað til hagræðinga en hann sagðist vonast til þess að ekki kæmi til uppsagna. Launalækkun væri ekki útilokuð. Þá hyggðist sveitarstjórnin glíma við vandann á eigin forsendum en ekki leita til ríkisvaldsins.
Undanfarið hafa varið skoðaðir möguleikar á sölu eigna og hefur sveitastjórnin þegar selt eitt einbýlishús auk búningsklefa að Kleifum. Þá hafa verið tekin upp varmaskipti í tveimur félagsheimilum af þremur sem sveitarfélagið rekur og sagði Guðmundur Ingi að það sparaði um eina milljón króna á ári. Verið er að skoða möguleika til hagræðingar með þriðja félagsheimilið.
Sömuleiðis er verið að skoða hvað hægt er að gera varðandi rekstrarkostnað á sundlauginni á Klaustri sem er sveitarfélaginu kostnaðarsöm.
Guðmundur Ingi sagði að sveitarstjórnin hefði fyrir stuttu fundað með ráðuneytisstjórum vegna tjóns og áfalla af völdum eldgosa tveggja síðustu ára. Sagðist hann vonast til þess að einhver úrlausn fengist þar sem hefði jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.