Eignaspjöll unnin í íbúð meints kynferðisafbrotamanns

Síðdegis á laugardag barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um að brotist hefði verið inn í íbúðarhús við Hásteinsveg 30 á Stokkseyri og þar unnin eignaspjöll.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er þarna um að ræða heimili manns um sjötugt sem lögreglan á Selfossi hefur nú í haldi grunaðan um kynferðisbrot gagnvart þremur ungum börnum. Við húsleit hjá manninum, þegar hann var handtekinn, fannst umtalsvert magn tölvugagna sem hann hefur viðurkennt að innihaldi barnaklám.

Í innbrotinu um helgina var ísskáp velt á hliðina, hurð og glös brotin. Auk þess hafði verið rótað í skúffum og skápum en ekki er vitað hvort einhverju hafi varið stolið.

Talið er að eignaspjöllin hafi átt sér stað frá því síðastliðinn föstudag þar til á laugardag.

Lögreglan biður alla sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.

Fyrri greinÞjófur stal þremur verðmætum úlpum í FSu
Næsta greinFSu úr leik eftir spennandi keppni