Eignast lóðir banka gegn því að kosta gatnagerð

Sveitarfélagið Árborg mun greiða fyrir frágang á íbúðasvæði á svokallaðri Gráhellu á Selfossi og ætlunin er að klára þar gatnagerð fljótlega.

Þar hafa engar framkvæmdir verið í langan tíma og íbúar sem þar búa hafa lengi kallað eftir frágangi í hverfinu. Alls hafa verið skipulagðar lóðir fyrir 144 íbúðir í hverfinu, þar af um 18 einbýlishús.

Að því er heimildir segja er Íslandsbanki eigandi landsins og samkvæmt samningi við sveitarfélagið mun bankinn sjá um að fá verktaka til að ráðast í að klára göturnar. Þegar úttekt hefur farið fram mun sveitarfélagið sjá um greiðslu á því en á móti fær það eignir, þe. lóðir og lendur á núverandi markaðsvirði.

Hinsvegar getur liðið einhver tími þar til sveitarfélagið nái að fá fjármuni út úr þeim lóðum, enda talið nægt byggingarrými á Selfossi til langs tíma. Þannig eru lóðir í Hagalandi þar sem gert er ráð fyrir hundruðum íbúa, og þar er búið að malbika götur. Hið sama má segja um Austurbyggð, í næsta nágrenni við Gráhellu, þar sem áætlað er að séu um 340 lóðir.

Fyrri greinAndri og Thelma skrifuðu undir
Næsta greinLaxveiðin rólegri en í fyrra