Gamla sundlaugin við Hverahólmann í Grafarhverfinu í Hrunamannahreppi, var gerð 1891 og er elsta sundlaug á Íslandi. Hún hefur nú verið opnuð á nýjan leik.
„Talið er að hér hafi verið baðstaður í aldaraðir en laugin var í landi Grafar þar sem var þingstaður Hrunamannahrepps til ársins 1894,“ segir Björn Kjartansson í Hvammi, sem opnaði gömlu sundlaugina formlega um síðustu helgi.
Árið 1909 var fyrst haldið sundnámskeið í lauginni og síðan árlega til ársins 1947 þegar farið var að nota sundlaugina á Flúðum til kennslu. Notkun laugarinnar lagðist þá af en nú hefur hún verið endurgerð og tekin í notkun á ný með nýrri og glæsilegri búningsaðstöðu. Þá spillir umhverfi laugarinnar ekki fyrir en í kringum hana eru nokkrir hverir og göngustígur, sem gaman er að fara um.
Björn hefur lyft grettistaki með opnun laugarinnar en hann þurfti að hreinsa upp laugina, hlaða bakkana upp á nýtt og hann breytti gömlu gróðurhúsi í flott baðhús, ásamt því að byggja pall og göngustíg í kringum hverina.
„Ég stefni á að hafa opið allt árið og stíla laugina fyrst og fremst fyrir ferðamenn, sem vilja njóta þess að slaka á í þessari 1.200 fermetra laug,“ segir Björn ennfremur.
Opið er alla daga vikunnar frá kl. 12:00 til 22:00.