Það verður mikil hátíð í Pylsuvagninum á Selfossi í dag, mánudag, á milli kl. 15 og 17, þegar 30 ára afmæli vagnsins verður fagnað.
Pylsuvagninn er svo sannarlega eitt af helstu kennileitum á Selfossi og vart nokkuð mannsbarn sem ekki hefur stoppað þar einhvern tímann á lífsleiðinni. Eigandi pylsuvagnsins er Ingunn Guðmundsdóttir sem segir það heppilegt að afmælisdaginn beri upp á annan í hvítasunnu og því tilvalið að slá upp alvöru afmælisveislu.
„Við munum gefa kók og pylsur á Pylsuvagnsplaninu á milli klukkan 15 og 17 á afmælisdeginum en við verðum líka með kókómjólk fyrir þá sem vilja hana frekar,“ segir Ingunn. Þó það nú væri í heimabæ kókómjólkurinnar. Og þetta verður alvöru pylsupartí að hennar sögn.
„Við ætlum einnig að gefa Pylsuvagnsboli eins og við gerðum á 25 ára afmælinu. Þeir slógu í gegn og voru mjög vinsælir meðal barna í bænum,“ rifjar Ingunn upp, enda má segja að planið hjá henni hafi verið rautt yfirlitum vegna þessa, síðast þegar hún sló í veislu.
Þegar Ingunn er spurð um hve margir starfsmenn hafi starfað hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina stendur ekki á svari. „Starfsmennirnir eru 243 og þar af eru fjórir karlmenn en þeir störfuðu í Pylsuvagninum á upphafsárum hans,“ segir hún. Og það stendur ekki á svari þegar spurt er hver vinsælasti rétturinn hafi verið í gegnum tíðina. „Það er klárlega pylsa með öllu, það hefur verið lang vinsælast hérna hjá okkur,“ svarar Ingunn um hæl.