Aðalfundur Samtaka ungra bænda (SUB) var haldinn að Reykjum í Hrútafirði um síðustu helgi.
Samtök ungra bænda hafa það hlutverk að sameina unga bændur á Íslandi um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Jafnframt að vinna að ímynd landbúnaðar með kynningar- og fræðslustarfi.
Kosið var um tvo nýja meðlimi í stjórn SUB og tvo í varastjórn. Þórir Níelsson og Jóna Þórunn Ragnarsdóttir gáfu ekki kost á sér áfram. Jóna Björg Hlöðversdóttir og Jón Elvar Gunnarsson voru kosin í stjórn og Ólöf Ósk Guðmundsdóttir og Gunnar Guðbjartsson í varastjórn. Einar Freyr Elínarson í Sólheimahjáleigu er ennþá formaður samtakanna.
Fundurinn ályktaði um þau mál sem helst brunnu á fundarmönnum. Má þar nefna ályktun um búvörusamninga, breyttar áherslur í dýraverndarmálum, menntamál og aukna dýralæknaþjónustu. Þá samþykkti fundurinn að fela stjórn að kanna kosti þess að samtökin gerist aðildarfélag Bændasamtaka Íslands.